Skólareglur
Við mætum alltaf
Eins og á öðrum vinnustöðum er ætlast til fullkominnar mætingar. Ekki er þó hægt að komast hjá sumum fjarvistum eins og þeim sem stafa af veikindum. Fari mætingar að nálgast 80% fá nemendur viðvörun. Taki þeir sig ekki á er þeim vísað úr námi.
Við tilkynnum forföll
Forföll skulu tilkynnt í síma 411-6540 eða í gegnum vefsíðuna http://namsflokkar.is/, helst áður en kennsla hefst og eigi síður en k. 9:30. Eftir það er skráð óútskýrð fjarvist. Um lengri forföll þarf að ræða við náms- og starfsráðgjafa.
Við mætum stundvíslega
Best er að mæta nokkrum mínútum áður en kennsla hefst. Þeir nemendur sem ekki eru komnir í upphafi tíma fá merkt seint í kladdann.
Við mætum með bækur og gögn
Hafa skal meðferðis þær bækur, gögn og ritföng sem þarf í tímana hverju sinni. Það gæti truflað kennslu ef það gleymist.
Við erum virk í tímum
Kennsla án virkrar þátttöku nemenda skilar litlum árangri. Við þurfum að spyrja þegar við skiljum ekki og láta skoðanir okkar í ljós í umræðum.
Slökkt er á símum eða þeir án hljóðs
Símhringingar trufla kennslu. Það truflar líka kennslu ef nemandi fer út úr tíma til að tala í síma. Ef von er á áríðandi símtali er hægt að hafa símann án hljóðs og biðja um leyfi til að fara út ef hringt er úr tilteknu númeri.
Við borðum ekki í kennslustofunum
Það truflar kennslu ef nemendur eru að borða auk þess sem það er ósnyrtilegt. Við borðum bara í matsalnum. Drykki í lokuðum flöskum má hafa í kennslustofum. Bannað er að henda plastmálum úti.
Við reykjum bara úti
Notkun tóbaks og rafsígarettna er ekki leyfð innan húss, en reykingar og notkun munntóbaks eru leyfðar við suðurenda byggingarinnar. Nemendum sem nýta aðstöðuna ber að halda svæðinu snyrtilegu. Stranglega bannað að hrækja.
Við hugsum um hópinn
Við sýnum samnemendum okkar virðingu og hugsum alltaf um hagsmuni hópsins. Við látum engan finnast hann vera útundan! Við tölum ekki um neyslu eða djamm.
Gagnkvæm virðing ríkir meðal nemenda og kennara
Ef allir sýna öðrum kurteisi og virðingu gengur nám og kennsla miklu betur!
Við tökum ekki börnin með
Börn og gæludýr trufla kennslu og því tökum við þau ekki með.